Hátíðardagur - Miðgarðakirkja vígð.
- oddurbjarni
- Aug 13
- 2 min read

Það var bjart yfir fólki í Grímsey síðastliðinn sunnudag, þegar að heimamenn fögnuðu vígslu nýju kirkjunnar sinnar. Óteljandi hendur og handtök hafa hér lyft grettistaki svo ekki sé meira sagt. Stundin var hátíðleg og falleg - leidd áfram af biskupi Íslands, sr. Guðrúnu Karls Helgudóttur sem mæltist vel. Að auki tóku þátt sr. Gísli Gunnarsson vígslubiskup, sr. Svavar Alfreð Jónsson prófastur - sem aukinheldur er fyrrum þjónandi prestur í Grímsey, sr. Pálmi Matthíasson fyrrum prestur Grímseyinga, sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir fyrrum vígslubiskup, sr. Magnús G. Gunnarsson sem hefur hvað lengst þjónað Grímseyingum og annar núverandi prestur þeirra eyjaskeggja, sr. Oddur Bjarni Þorkelsson. En sr. Erla Björk sóknarprestur var því miður vant við látin.
Sigrún (Sía) Þorláksdóttir fór með upphafsbæn að venju og Jóhannes Henningsson og Anna María Sigvaldadóttir lásu ritningarlestra. Þá var tónlistin dásamleg, en organisti var Þórður Sigurðarson, ásamt með Sigrúnu Mögnu Þórsteinsdóttur sem stjórnaði kór sínum úr Möðruvallaklausturskirkju. Kirkjuklukkur sem sóknarnefnd Hallgrímskirkju í Reykjavík, færði Miðgarðasókn að gjöf, voru helgaðar fyrir stundina, þar tóku þátt fyrir hönd Hallgrímskirkjusóknar þeir Einar Karl Haraldsson og Grétar Einarsson, sem og sr. Eiríkur Jóhannsson - og var klukkum svo hringt til vígslumessu. Að lokinni messu var skundað í Múla, þar sem Grímseyingar buðu til samsætis af miklum höfðingsskap eins og þeirra var von og vísa. Þar stigu á stokk ýmsir með talað mál og sungið, m.a. flutti Alfreð Garðarsson formaður sóknarnefndar Miðgarðakirkju tölu og annaðist umsjón dagskrár - Kristjana Arngrímsdóttir og Kristján Hjartarson (byggingameistari kirkjunnar) fluttu viðstöddum fallegan söng, sem og Jónas Þór Jónasson sem einmitt söng við síðustu athöfn í Miðgarðakirkju fyrir bruna. Og að lokum þakkaði kirkjukórinn fyrir sig með flutningi tveggja laga Langþráðri stund var lokið - og allir héldu heim í Guðs friði. Miðgarðakirkja er vígð. Til hamingju Grímseyingar
Comments