top of page
  • oddurbjarni

Vel heppnuð nýársmessa


Sem endranær var hún góð, guðþjónustan í Vallakirkju, þar sem liðið ár var kvatt og nýju ári heilsað með sálmasöng og ritningartextum. Sr. Erla Björk þjónaði, kórinn lék við hvern sinn fingur undir öruggri stjórn Þórðar Sigurðarsonar organista og Kristjana Arngrímsdóttir söng einsöng. Freyr Antonsson flutti nýársræðu og kunnum við honum og öllum sem sóttu stundina og komu að henni, okkar allra bestu þakkir. Hér má svo lesa ræðuna : Nýársmessa í Vallakirkju í Svarfaðardal. 


Gleðilegt nýtt ár. Kærar þakkir fyrir að vera þú. Á nýju ári bætist við reynslu, gleði, sorg, vonbrigði og árangur. 

Þannig er lífið, það byggir okkur upp eða brýtur okkur niður. Það siglir sinn sjó en reynslubankinn fyllist aldrei það er alltaf pláss fyrir nýjan lærdóm, reynslu, þekkingu og ást. 

Það er gaman að lífinu, betra ef við njótum þess, betra ef við erum góð við aðra, betra ef aðrir eru góðir við okkur, betra ef við auðgum líf annarra. Við gleymum stundum að þakka fyrir okkur, þakka þeim sem í dagsins önn auðvelda okkur lífið. Við erum því miður alltof oft tilbúin að gagnrýna þegar eitthvað misferst, en það er stundin þar sem þú getur áttað þig á mikilvægi þess að allt gangi snurðulaust. Ég vona að við getum á nýju ári verið þakklátari fyrir það sem við höfum, hvað svo sem það er. Er það heilsan, fjölskyldan, vinirnir, samfélagið, umhverfið, eru það litlu hlutirnir, stóru draumarnir eða það sem við höfum áorkað í lífinu til þessa? Getum við verið betri í dag en í gær, getum við bætt okkur á einhverju sviði? Getum við beðist afsökunar, getum við fyrirgefið, getum við byrjað aftur, getum við lært af mistökum og fagnað því sem vel er gert?

Það er eitthvað við það að læra á sjálfan sig, hvað hefur áhrif á hegðun, viðbrögð, drifkraft eða hvað dregur þig niður. Lærdómurinn er allt í kringum okkur, jafnvel hræðislegustu stundir okkar færa okkur dýrmæta reynslu og þekkingu á okkur sjálfum. 

Hefurðu hugsað um hvað fær þig til að tárast, til að kvíða, til að elska, til að vilja kynnast öðrum, gerir okkur reið, gerir okkur hamingjusöm, fær þig til að mæta í vinnu, fær þig til að lifa? Hvað er það sem dregur þig fram á morgnana? Til hvers hlakkarðu, geturðu bætt við fallegu stundirnar, geturðu minnkað vonbrigðin, reiðina, sorgina? Getum við fagnað lífinu, getum við fagnað fjölbreytileika fólks, getum við sætt okkur við að allir eru einstakir og eru ekki alveg eins og við viljum hafa þá, enda er það ekki okkar að krefjast þess heldur virða það, virða þeirra breyskleika. Það sem við teljum ókost er kannski það sem fólk álítur kost sinn. Það er gott að umgangast fólk af virðingu. Stundum verður okkur á og erum óvönduð en það er hægt að reyna að bæta fyrir misgjörðir. Kannski líður okkur betur á eftir og líka þeim sem urðu fyrir óvandaðri framkomu. 

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama.

En orðstír

deyr aldregi

hveim er sér góðan getur.

Hvernig viljum við að fólk muni eftir okkur, hvernig viljum við að fólk tali um okkur? Orðspor fallegrar manneskju gleymist aldrei. Minning manneskju sem gerði vel fyrir aðra gleymist ekki í hugum þeirra. 

Það er eitthvað heillandi við að vinna samfélaginu gagn, gleðja aðra, hjálpa öðrum, gefa af sér, kenna fólki og vera til fyrirmyndar. 

Það þarf ekki ríkidæmi til að gera vel, það þarf vilja, kjark og hugulsemi. 

Bros, fallegar kveðjur eða hrós kosta ekkert. Getum við gert meira af því, getum við brosað meira, getum við þakkað fyrir okkur oftar, getum við hrósað oftar? Getum við tekið þátt í starfi sem gleður aðra? Getum við tekið höndum saman og auðveldað líf annarra?

Kæra ár 2024 vertu velkomið, við fögnum nýju upphafi. Við ætlum að bæta við okkur ást, hugulsemi og æðruleysi. Við ætlum að vera betri, við ætlum að gleðja aðra, við ætlum að hjálpast að, við ætlum að lifa í kærleika með öðru fólki. 

Gleðilegt nýtt ár sem við nýtum til góðs, góðar stundir.
2 views

Recent Posts

See All

Sumarið er tíminn...

fyrir sumarleyfin. Sr. Oddur Bjarni er farinn í sumarleyfi - en sr. Erla Björk stendur keik vaktina þar til 13. júlí, en þá fær hún frí og Oddur mætir aftur. Hafið það sem allra best öll - hvort he

Commentaires


bottom of page